Um sögurnar

Lífsleiknisögurnar sem hér er að finna eru fyrst og fremst ætlaðar einstaklingum á einhverfurófi og/eða með önnur frávik í taugaþroska.
Sumt nýtist börnum frá 9 ára aldri á meðan annað efni höfðar til eldri aldurshópa.  Efnið er að hluta til sett upp sem félagsfærnisögur, sem hægt er að aðlaga að hverjum og einum.

Mikilvægt er að sá aðili sem sinnir fræðslunni sé búinn að kynna sér innihald efnisins, áður farið er yfir það með viðkomandi, meðal annars með tilliti til aldurs.  Í sumum tilvikum henta einhverjar myndir jafnvel ekki og þá er um að gera að sleppa þeim eða geyma til betri tíma. Það er undir hverjum og einum leiðbeinanda komið að meta hvað hentar skjólstæðingi hans best hverju sinni.

Textinn með myndunum er engan veginn tæmandi en er gagnlegur til að koma af stað umræðum. Notið ímyndunaraflið og skoðið út frá mismunandi sjónarhornum og reynið eftir fremsta megni að aðlaga efnið eða boðskapinn að þörfum einstaklingsins.

Það getur verið gott að skoða eitt viðfangsefni í einu og nota samhliða ýmis önnur verkefni sem því tengjast. Ýmislegt efni má finna á veraldarvefnum, í námsbókum og myndböndum. Þá nýtist kennsluefnið Kynheilbrigði sem bent er á hér á síðunni einnig vel til að nota samhliða sögunum.

Lífsleiknisögunum svipar til félagsfærnisagna en þær hafa oft gefist vel til að leiðbeina einstaklingum um viðeigandi hegðun og kenna nýja færni í ólíkum aðstæðum. Við gerð efnisins var eftir bestu getu reynt að fylgja eftir þeim aðferðum sem félagsfærnisögur byggja á en ekki tókst alltaf að uppfylla þau skilyrði. Það á sérstaklega við um það efni sem er ekki í fyrstu persónu og efni þar sem fjallað er um óæskilega hegðun eða hvað má ekki en stundum er þörf á að hafa skýrar leiðbeiningar um slíkt.

pkipoipoipo