Góð ráð

Við mælum með
Að búin sé til mappa fyrir barnið/unglinginn. Hún gæti til dæmis heitið „Bókin um mig“.
Gott er ef leiðbeinandinn í skólanum býr til slíka möppu með millispjöldum þar sem lífsleiknisögunum er raðað inn í jafnt og þétt. Upplýsið foreldra reglulega um það sem er verið að vinna með.
Í möppuna er hægt að setja viðeigandi verkefni við hverja sögu, sem eru unnin samhliða lestri sögunnar. Ýmislegt efni, t.d. í námsbókum og á vefnum er hægt að nota í þessu samhengi. Einnig eru heppileg verkefni í verkefnaheftinu um kynheilbrigði (grænu bókinni) sem er til sölu hér á síðunni. Verkefnin þar passa til dæmis mjög vel við sögurnar „Allt um stráka“, „Allt um stelpur“, „Sjálfsmynd“ og „Einkarými og almannafæri“.

 

Góð ráð

1 Nýttu tækifærin til að tala um kynheilbrigði við barnið/unglinginn þinn þegar það gefst gott næði eins og til dæmis þegar þið eruð í saman í bíl, að elda saman eða horfa á mynd saman. Við slíkar aðstæður verður samtalið oft minna þvingað. Gott er að tala út frá einhverju sem hefur gerst eða út frá atriðum sem eru að gerast í myndinni. Samhliða umræðunni getur þú lumað inn atriðum sem varða gildi, viðhorf og óskrifaðar reglur samfélagsins.

2 Ef barnið/unglingurinn vill tala um þessi atrið á tíma sem hentar ekki,, útskýrðu hvers vegna það sé ekki heppilegt að ræða slík mál til dæmis á almannafæri eða ef þú ert upptekinn. Finndu nýjan tíma sem þið getið spjallað saman.

3 Undirbúðu barn þitt vel áður en það byrjar í kynþroska þannig að það viti hvaða breytingar eru í vændum og upplifi þannig síður óöryggi þegar breytingarnar eiga sér stað.

4 Vertu hreinskilin/n þegar þú ræðir um kynferðismál við barnið/unglinginn. Ef þú segir ekki rétt frá mun barnið þitt eiga erfiðara með að treysta þér fyrir þessum málum þegar það kemst að sannleikanum.

5 Ef þér finnst erfitt að ræða kynheilbrigðismál og um kynhegðun við barnið/unglinginn viðurkenndu það að fyrir þér sé þetta feiminismál og ekki svo auðvelt málefni að ræða um. Fátt vinnur betur á feimni en að viðurkenna hana og það hjálpar barninu/unglingnum betur að skilja þig.

6 Gakktu úr skugga um að barnið þekki einkasvæði líkamans og muninn á einkarými og almannfæri. Einnig hvaða hegðun sé viðeigandi á þessum stöðum.

7 Sýndu einkalífi unglingsins virðingu og leyfðu honum stundum að vera í einrúmi. Það hvetur hann til að bera virðingu fyrir einkalífi þínu og annarra.

8 Útskýrðu vel hvað eru viðeigandi hugtök og orðbragð á milli fólks.

9 Þegar þú talar um kynferðismál við barnið/unglinginn, ekki veigra þér við að tala um erfið og mikilvæg málefni eins og kynlífslanganir, sjálfsfróun og ástarsambönd. Mikilvægast er að unglingurinn átti sig á því sem er að gerast í líkamanum og kunni að bregðast rétt við.

10 Undirbúðu barnið þitt með samtölum um hvað það getur gert við óvæntar aðstæður eins og til dæmis:

Ef blæðingar byrja í skólanum.

Ef það lekur blóð í fötin.

Ef einhver togar í hlírann á brjóstahaldaranum

Ef það fær standpínu úti á skólalóðinni.

Ef röddin verður skræk og aðrir fara hlæja.

Í sameiningu getið þið fundið út mögulegar leiðir til að bregðast við þessum og öðrum svipuðum aðstæðum.

11 Gefðu leiðbeiningar, settu sanngjörn mörk en leyfðu barninu/unglingnum líka stundum að gera mistök og læra af reynslunni.

12 Ræðið hvað ástarsambönd fela í sér og þær skuldbindingar sem fela í sér að vera í ástarsambandi. Kenndu unglingnum að skilgreina muninn á milli þess að vera vinur, að vera skotinn í, kærasta/kærasti. Vertu vakandi fyrir því ef unglingurinn fær einhverja aðra manneskju á heilann. Hjálpaðu unglingnum að skilja að það sé eðlilegt að verða skotinn í einhverjum á unglingsárunum og það sé í góðu lagi, svo lengi sem það er innan marka og unglingurinn eltist ekki svo mikið við viðkomandi að það flokkist sem áreiti. Kenndu að heilbrigð sambönd einkennist af gagnkvæmni og virðingu.

13 Ef barnið/unglingurinn hefur eignast vini á öðrum aldri, skaltu tryggja að sú vinátta sé heilbrigð og gagnkvæm. Gæta þarf þess að barnið/unglingurinn þinn sé ekki að misnota aðstöðu sína gagnvart yngra barni og að samskiptin séu ekki óviðeigandi kynferðislega. Þegar barnið þitt á í vinatengslum við sér eldri einstakling þarf að fylgjast með og gæta þess að ekki sé verið að misnota barnið á nokkurn hátt.

14 Fullvissaðu barnið þitt um að það sé eðlilegt að vinátta breytist á kynþroskaaldrinum, því fólk þroskist á ólíkum aldri og hraða og þrói með sér mismunandi áhugamál. Hvettu barnið til að finna út hvaða áhugamál það hefur og veittu stuðning til að barnið/unglingurinn finna sér nýja vini á því sviði, með því að finna hópa eða námskeið fyrir börn með svipuð áhugamál.

15 Gættu þess að barnið/unglingurinn sé meðvitað/ur um mögulegar hættur internetsins og kunni að nota það á öruggan hátt. Hafðu eftirlit með netnotkuninni.

(S. Attwood, (2008) Making sense of sex)

pkipoipoipo